Ferðin í Guðmundarlund tókst vel.Kannski voru rúmlega 200 eldri borgarar Kópavogi samkomnir í Guðmundarlundi 15. júní 2022. Ferð okkar í Guðmundarlund er árlegur viðburður og er samstarfsverkefni FEBK, Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar. Veður var milt, sól og hægur andvari þann tíma sem hátíðin stóð eða milli kl. 14 og 16. Það gerði smáskúr ca 15 mínútum fyrir tvö og annan 8 mínútur yfir fjögur. Formaður FEBK þakkar sér víst hversu gott veðrið var, hann sagði í færslu fyrir hátíðina að hann væri "aumur í hnjánum eftir að hafa verið á þeim í nótt og beðið um þurrk og smá sólarglætu milli kl. 14 og 16. Það á eftir að koma í ljós hversu bænheitur hann er!"

Reyndar sagði annar þarna uppfrá að ástæða góða veðursins væri sú að hann hefði haft regnhlífina með sér!

Í Guðmundarlundi var boðið upp á brauðmeti og ávaxtabita frá Sóma, vatn, kaffi, djús og léttvín, rautt og hvítt. Gleðigjafarnir, Gulli og Siggi, voru með nikkurnar og fólkið söng með þeim. Þröstur Magnússon frá Skógræktarfélaginu bauð hópinn velkominn og fyrsta opinbera verk nýkjörins bæjarstjóra Kópavogs, Ásdísar Kristjánsdóttur, var að ávarpa samkomuna og fannst henni það vel til fallið.
Við höldum að vel hafi tekist til, fólki þótt gaman að hittast, spjalla saman og njóta veitinganna og margir tóku undir í söngnum og sumir af mikilli innlifun.

FEBK þakkar þátttakendum komuna og samveruna. Einnig færum við öllum þeim sem gerðu okkur kleift að hittast þarna í Guðmundarlundi í dag samstarfið.

Mikið lesið
Nýlegar fréttir
Fréttasafn
Leita eftir innihaldi